EducationUSA Academy

EducationUSA Academy gefur námsmönnum á aldrinum 16-17 ára tækifæri til að bæta enskukunnáttu sína, kynnast bandarískri menningu og háskólaumhverfi, og veitir góðan undirbúning fyrir þá sem hyggja á háskólanám í Bandaríkjunum síðar meir. Sumarið 2020 taka 11 bandarískir háskólar þátt í verkefninu, þar á meðal skólar á borð við Boston University og Northwestern University. Um er að ræða sumarnámskeið sem stendur yfir í 2-4 vikur á tímabilinu júní til ágúst en lengd og tímasetning er mismunandi eftir því við hvaða skóla þátttakendur dvelja.

Fulbright stofnunin/EducationUSA ráðgjafarmiðstöðin veitir tveimur íslenskum námsmönnum fullan styrk til þátttöku í EducationUSA Academy sumarið 2020. Ferðir og þátttökugjöld verða greidd fyrir valda þátttakendur, og eru uppihald og tryggingar inni í því.

Sótt er um styrkinn hjá Fulbright stofnuninni, en umsóknareyðublað má finna hjálagt og á http://www.fulbright.is/namsmenn_til_bandarikjanna/educationusa_academy/. Þar má jafnframt finna eyðublöð fyrir meðmælendur. Umsóknarfrestur er til 15. janúar 2020.

Almenn skilyrði sem íslenskir umsækjendur þurfa að uppfylla:

  • vera í framhaldsskólanámi (í menntaskóla eða sambærilegu námi) eða á síðasta ári í grunnskóla
  • vera á aldrinum 16-17 ára þegar námskeiðið fer fram
  • vera góður námsmaður og vera félagslega virkur
  • hafa lokið enskunámi í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla og ef við á, stundað enskunám á framhaldsskólastigi.
  • hafa íslenskan ríkisborgararétt
  • umsækjendur mega ekki hafa bandarískt ríkisfang
  • þroskaðir og ábyrgir einstaklingar sem skuldbinda sig til virkrar þátttöku í námskeiðinu

 

Gert er ráð fyrir því að styrkþegarnir séu "góðir fulltrúar lands og þjóðar" sem munu, á meðan á námsdvöl stendur, kynna eigin menningu á jákvæðan hátt í Bandaríkjunum. Þátttakendur skuldbinda sig til að taka þátt í öllu námskeiðinu og lúta reglum gestgjafans á meðan á dvölinni stendur. Fulbright stofnunin mun skipuleggja ferðir þátttakenda og er gert ráð fyrir að þeir fari beint á námskeiðið við komu til Bandaríkjanna og svo beint til Íslands að námskeiðinu loknu. Tekið verður á móti þátttakendum á flugvelli og verða umsjónarmenn ávallt til staðar í gegnum námskeiðið.

Á þessu stigi skulu umsækjendur kynna sér þá háskóla sem í boði eru og velja þá þrjá sem þeim líst best á, en ekki skal sækja um háskóla á þessu stigi. Þegar þátttakendur hafa verið valdir mun Fulbright stofnunin aðstoða valda umsækjendur við lokaval á skóla (en sá skóli sem er að lokum valinn getur verið annar en valinn var í umsókn) og við gerð umsóknar. Þess skal getið að námskeið, inntökuskilyrði og umsóknarferli eru mismunandi eftir skólum og þurfa umsækjendur að kynna sér þau vel áður en óska skólar eru valdir. Sjá frekari upplýsingar um EducationUSA Academy á: http://www.edusaacademy.org/

Senda skal útfyllta umsókn, ritgerð og yfirlit yfir einkunnir eigi síðar en 15. janúar. Jafnframt skal umsækjandi tryggja að meðmælendur skili umsögnum beint til Fulbright stofnunarinnar eigi síðar en 15. janúar. Athugið að meðmæli verða að koma beint frá meðmælanda til Fulbright. Ekki er tekið við meðmælum sem koma í gegnum umsækjanda.