Samstarf heimilis og skóla

Grunnskóli Húnaþings vestra leggur mikla áherslu á gott samstarf við heimilin. Til þess að svo megi vera þurfa báðir aðilar að leggja nokkuð af mörkum. Þeir föstu liðir sem samskiptin byggja á eru eftirfarandi:

  • Viðtalsdagur að hausti þar sem farið er yfir nám og líðan nemenda. 

  • Umsjónarkennarar setjist reglulega niður með hverjum og einum nemenda, fari yfir þau markmið sem sett hafa verið og hjálpist að við að meta árangur. Miðað er við að tekið sé viðtal við hvern nemanda a.m.k. einu sinni á önn, oftar þá sem sérstaklega þurfa.

  • Viðtalsdagur í upphafi vorannar. Foreldrar og nemendur mæta í viðtal til umsjónarkennara og fá formleg skil á námsmati fyrir haustönn.

  • Í mars ræða umsjónarkennarar við foreldra og nemendur sem þeir telja þörf á.  Einnig er þeim foreldrum sem þess óska boðið upp á viðtöl.

  • Samskipti þar fyrir utan með símtölum, tölvupósti og fundum þar sem ástæða er til.

  • Umsjónarkennari hlutast til um að tilnefndir séu bekkjarfulltrúar sem einnig eru tengiliðir við foreldrafélag skólans.

  • Vikuáætlanir/ heimanámsáætlanir ásamt fleiri upplýsingum um skólastarfið eru birtar á vefnum mentor.is þar sem þær eru aðgengilegar fyrir foreldra.

  • Föstudagsmolinn sendur út vikulega með upplýsingum um skólastarfið.Skólinn leggur áherslu á að foreldrar eru ávallt velkomnir í skólann. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband, jafnvel þó svo að ekkert sérstakt sé að. Afar mikilvægt er að samband sé haft við skólann strax og eitthvað bjátar á, oftast er hægt að færa mál til betri vegar ef gripið er nægilega fljótt í taumana. Allir vita hversu erfitt getur verið að leysa vanda sem hefur hlaðist upp og er kominn í erfiðan hnút. Því reynir skólinn á sama hátt að hafa samband við heimilin um leið og eitthvað gengur öðru vísi en ætlast er til.

 

Komi upp ágreiningur milli foreldra og kennara ættu aðilar skilyrðislaust að hittast á formlegum fundi og freista þess að leysa ágreiningsmálin. Gildir þá einu hvor aðilinn óskar eftir fundi. Ekki er ráðlegt að draga slíkt því málin geta vaxið og orðið torleystari eftir því sem tíminn líður. Ef málin leysast ekki eru aðilar hvattir til að hafa samband við skólastjóra sem tekur þá á málinu eftir eðli þess eða vísar því áfram til fræðsluráðs.