Nýbúar

Viðtökuáætlun fyrir nýja Íslendinga í Grunnskóla Húnaþings vestra

Þegar nemandi með annað móðurmál en íslensku kemur í skólann er upplýsinga aflað um hann, fyrri skólagöngu og námsstöðu. Fundur er boðaður með foreldrum, umsjónarkennara, stuðningskennara og deildarstjóra eða aðstoðarskólastjóra ásamt túlki ef þörf krefur.
Á þessum fundi er farið yfir þjónustu og stoðkerfi skólans, aðkoma Fjölskyldusviðs Húnaþings vestra kynnt, settur niður grunnur að einstaklingsáætlun og samskiptaleiðir ákveðnar, s.s. símatími, samskiptabækur eða fastir fundir. Nemandi sækir strax almenna tíma í sínum umsjónarbekk og tímafjöldi í námsveri fer eftir aldri, námsstöðu og dvalartíma á Íslandi.
Stuðningskennari (nýbúakennari) og umsjónarkennari skipuleggja síðan og aðlaga námsefni nemandans. Oftast er byggt á að nemandi þurfi grunn úr námsefni yngri bekkja. Í íslenskukennslu hjá nýbúakennara er lögð áhersla á orðaforða, málskilning, málnotkun, lesskilning, talmál o.s.frv. Unnið er með margvíslegt námsefni. Lögð er áhersla á góða samvinnu allra og góða líðan nemenda.