Frístund

Frístund

 

Börn í 1.- 4. bekk skólans eiga kost á að dvelja í Frístund eftir skólatíma dag hvern til kl. 16:00.  Foreldrar nemenda í 5. og 6. bekk geta einnig sótt um vistun innan starfstíma skóla í frístund ef fjöldi leyfir. Frístund starfar einnig alla aðra virka almanaksdaga ársins (nema viðtalsdaga, á skólaslitum og skólasetningu) frá kl. 8:00 – 16:00. Sumarfrí Frístundar er á sama tíma og sumarfrí leikskólans Ásgarðs ár hvert.

 

Markmið 
Meginmarkmið Frístundar er að sameina uppeldi og menntun við hæfi þeirra barna sem Frístundar njóta, að örva alhliða þroska þeirra, að efla með þeim virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, að efla sjálfstæði, ábyrgð, umburðarlyndi og vináttu. Reynt er að ná þessum markmiðum með fjölbreytilegum verkefnum. Mest áhersla er lögð á frjálsan leik, þar sem skólavistun er í raun frítími barnanna. Einnig er hópastarf og skapandi verkefni eftir því sem unnt er.

 

Þá daga sem skóli starfar ekki innan skóladagatals (s.s. starfsdaga, jólafrí og páskafrí) þarf að láta umsjónarmann Frístundar vita með 3 daga fyrirvara um vistun þessa daga. Enginn skráist sjálfkrafa í vistun þessa daga og ef enginn er skráður er Frístund lokuð.
Skrá þarf börn í Frístund fyrir allan veturinn með skráningarblaði sem tilgreinir hvaða daga  á að nota. Börn geta ekki byrjað í Frístund fyrr en skráningarblaði hefur verið skilað.

Frístund utan starfstíma skóla á sumrin þarf að skrá sérstaklega samkvæmt auglýsingu.

 

Greitt er fyrir Frístund samkvæmt mánaðargjaldi, óháð því hvort barn dvelur allan þann tíma sem skráður er eða ekki. Síðdegishressing er innifalin í vistunargjaldi. Greitt er sérstaklega fyrir morgunhressingu og hádegismat ef um fullan dag er um að ræða.

 

Í neyðartilfellum er hægt að biðja um vistun með stuttum fyrirvara hjá umsjónarmanni Frístundar og þá er greitt sérstakt gjald,  fyrir hálfan eða heilan dag (4 tíma).

 

Eftir sumarfrí Frístundar og leikskóla eiga verðandi nemendur í 1. bekk skólans rétt á vistun.

 

Umsókn - tímaskráning
Foreldrar skuldbinda sig til að halda staðfestum vistunartíma á starfstíma skóla samkvæmt skóladagatali. Óski foreldrar eftir breytingu á dvalartíma barnsins, þarf að sækja um breytingu skriflega. Uppsögn eða breytingar á dvalartíma taka gildi miðað við 1. hvers mánaðar og þarf að tilkynna fyrir 15. dags mánaðarins á undan.

Frí og hvers konar forföll þarf að tilkynna, annað hvort beint í Frístund (sími 895-2915) eða til skólastjórnenda (sími 455-2900) Ef um breyttan áður skráðan tíma er að ræða er líka hægt að senda börnin með skrifleg skilaboð t.d. að fá að fara fyrr heim eða heim með vini.  Leyfi til þess þurfa að koma frá foreldrum.

Langir dagar:  Skoðið skóladagatalið vel. Þá daga sem engin kennsla er eða frí (t.d. haust-, jóla-, vetrar- og  páskafrí og starfsdaga) er opið frá 8:00 – 16:00. Skrá þarf börnin sérstaklega í frístund þessa daga og er minnt á þá þegar þeir eru. Engin börn er skráð sjálfkrafa þessa daga. 

Gjaldskrá
Mánaðargjald er samkvæmt gjaldskrá Húnaþings vestra.

Vistun utan skráningar, hvert skipti, ½ dagur (4 tímar) samkvæmt gjaldskrá Húnaþings vestra.