Nemendaverndarráð

Nemendaverndarráð 

Sigurður Þór Ágústsson

Eydís Bára Jóhannsdóttir

Kristinn Arnar Benjamínsson 

Guðný Kristín Guðnadóttir

Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir 

 

Við skólann starfar nemendaverndarráð sem skipað er skólastjórum og aðstoðarskólastjórum grunn- leik- og tónlistarskóla og sviðsstjóra fjölskyldusviðs. Ráðið fundar að jafnaði hálfsmánaðarlega. Í nemendaverndarráði eru teknar ákvarðanir um málefni einstakra nemenda samkvæmt fyrirliggjandi beiðnum. Þeim er vísað áfram til stoðþjónustu skólanna, heilsugæslu eða fjölskyldusviðs. Þar er einnig fjallað um skipulag og framkvæmd sérkennslu og annarrar þjónustu innan skólanna og gefnar eru ráðleggingar til skólastjórnenda um hvernig best skuli stuðlað að jákvæðu námsumhverfi fyrir nemendur og alhliða velferð þeirra. Ráðið samræmir vinnu þeirra aðila sem fara með málefni einstakra nemenda skólans. Þannig fara í gegnum ráðið allar ákvarðanir um tilvísanir til sérfræðinga utan skólans og verkum er skipt milli þeirra sem í ráðinu sitja. Beiðnir til nemendaverndarráðs má finna á heimasíðu skólans.


Menntamálaráðherra hefur sett svohljóðandi reglugerð um nemendaverndarráð nr. 388/1996.
1. gr.
Skólastjóri grunnskóla getur stofnað nemendaverndarráð til eins árs í senn. Hlutverk nemendaverndarráðs er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu, vera skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur.
2. gr.
Í nemendaverndarráði geta átt sæti skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri, umsjónarmaður sérkennslu ef hann starfar við skólann, fulltrúi heilsugæslu, þar sem því verður við komið, fulltrúi sérfræðiþjónustu skóla, þar sem því verður við komið og námsráðgjafi skólans, sé hann starfandi.
Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri er formaður nemendaverndarráðs.
3. gr.
Starfsemi ráðanna tekur mið af aðstæðum á hverjum stað. Þar sem 10 kennarar eða fleiri eru starfandi auk skólastjóra er æskilegt að slíkt ráð sé starfandi.
4. gr.
Þurfi nemandi að mati umsjónarkennara á sérstakri aðstoð að halda vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika skal umsjónarkennari vísa málinu skriflega til skólastjóra sem getur lagt málið fyrir nemendaverndarráð.
5. gr.
Nemendaverndarráð fjallar um sérstök úrræði varðandi einstaka nemendur sem lögð hafa verið fyrir ráðið. Ráðið metur hvaða viðbótarupplýsinga er þörf og boðar á sinn fund umsjónarkennara og forráðamenn svo og aðra aðila sem tengjast máli nemandans ef þörf krefur.
Þegar ákvörðun hefur verið tekin um nauðsynlegar ráðstafanir, getur skólastjóri falið ákveðnum aðila/aðilum innan ráðsins að fylgja málinu eftir ef nauðsyn krefur.

6. gr.
Nemendaverndarráð kemur saman hálfsmánaðarlega og oftar ef þörf krefur. Fundir skulu færðir til bókar. Fara skal með persónulegar upplýsingar samkvæmt reglum um meðferð trúnaðargagna.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 39. grein laga nr. 66/1995 um grunnskóla og öðlast gildi 1. ágúst 1996.