Samstarf leik- og grunnskóla

Samskipti leikskólans Ásgarðs og Grunnskóla Húnaþings vestra

Markmið samskipta skólanna eru að tryggja samfellu í námi nemenda og öruggan flutning nemenda milli skólastiga. Með því er átt við að samvinna og samráð sé milli stofnananna, stjórnenda þeirra og kennara um námsefni og aðferðir. Að börn og foreldrar finni til öryggis þegar líður að því að kveðja leikskólann og takast á við næsta skólastig.

Upplýsinga- og samráðsfundir:

 • Sérkennarar og þroskaþjálfi eru starfsmenn grunn- og leikskóla og sinna umsjón sérkennslu og sérúrræða í skólunum.

 • Skólastjórnendur sitja nemendaverndarráðsfundi grunnskólans aðra hverja viku ásamt sviðstjóra fjölskyldusviðs. 

 • Í september ár hvert hittast skólastjórnendur leik- og grunnskóla ásamt umsjónarmanni vinnustundar leikskólans og umsjónarkennara 1. bekkjar m.a. til að dagsetja og undirbúa gagnkvæmar heimsóknir og samskipti yfir veturinn. Leikskólastjóri boðar til fundarins.  

 • Í janúar hittast umsjónarmaður vinnustundar, skólastjóri leikskóla, aðstoðarskólastjóri grunnskóla, kennari 1. bekkjar til gagnkvæmra upplýsinga um námsefni beggja skóla, samanburðar, samhæfingar og ráðlegginga. 

 • Að vori hittast verðandi kennari 1. bekkjar, aðstoðarskólastjóri grunnskóla, sérkennari í grunnskóla, umsjónarmaður vinnustundar og leikskólastjóri til upplýsingamiðlunar um nemendur. Fleiri kallaðir til ef þörf þykir á.

Gagnkvæmar heimsóknir:

 • 1. bekkur grunnskólans er vinabekkur skólahóps leikskólans. 

 • Skólahópur kemur í heimsókn í skólann í byrjun október, skólastjórnandi tekur á móti hópnum og sýnir skólann.  Dvalið á skólalóð í frímínútum.

 • 1. bekkur fer í heimsókn í leikskólann í október, samverustund með skólahópi. Samveran á að einkennast af góðum móttökum leikskólans. Börnin kynna sig fyrir hvort öðru, fyrst grunnskólabörn og síðan leikskólabörn. Fjallað er um tilgang heimsóknarinnar sem er að kynna leikskólabörnin fyrir sér eldri börnum. Börn sem eru að hefja grunnskólagöngu stendur stundum ógn af sér eldri börnum og því mikilvægt að koma á kynnum til að auka á öryggiskennd þeirra gagnvart nýju skóla umhverfi. Að lokinni inniveru á að fara út í leiki sem er stjórnað af kennurum. T.d. hlaupa í skarðið og/eða stórfiskaleik. Skólahópur hefur útbúið eitthvað sem grunnskólabörn hafa með sér í skólann til að hengja upp í skólastofu og minnir á verkefnið.

 • Í október hefjast heimsóknir leikskólanemenda í 1. bekk grunnskólans, börnin fara og dvelja í skólanum ½ dag. Í mars fara nemendur með í matsal og borða hádegismat með öðrum nemendum. Grunnskólinn boðar einnig þá nemendur sem ekki eru í leikskóla í heimsókn af þessu tagi.

 • Nemendur í leikskóla hafa sótt kennslu hjá íþróttakennara grunnskólans frá þriggja ára aldri. Þegar líður að vori fara nemendur í sundtíma.

 • Vinnustundarhóp er boðið á lokaæfingu fyrir árshátíð grunnskólans í nóvember í fylgd kennara frá leikskóla.

 • Kennarar á báðum skólastigum hafi í huga að bjóða til heimsókna yfir veturinn í tilefni af uppákomum s.s. leiksýningum o.fl.

 • Tilvalið er að 1. bekkur og vinnustundarhópur sendi hvort öðru jólakort, eitt kort fyrir alla.

Annað:

 • Leikskólabörn taka þátt í danssýningu með grunnskóla og er hún haldin í íþróttahúsi Hvammstanga.

 • Leikskólinn fer í útskriftaferð með vinnustundahóp leikskólans og býður með tilvonandi skólasystkinum sem ekki dvelja í leikskóla.

 • Að vori fá verðandi nemendur og foreldrar bréf frá grunnskóla þar sem þeir eru boðnir velkomnir í skólann að hausti.

Skólabyrjun:

 • Nemendur og foreldrar boðaðir bréfleiðis til fundar við umsjónarkennara í upphafi skólaárs. Þar er farið yfir komandi skólaár og nemendum og foreldrum sýndur skólinn. Foreldrar hvattir til að fylgja nemendum fyrsta virka skóladaginn. Kennari frá leikskólanum fylgir bekknum fyrsta skóladaginn ef þurfa þykir í grunnskólanum.

 • Í upphafi skólagöngu 1. bekkjar eru nemendur úr 2. bekk hvattir til að vera “vinum” sínum til halds og trausts t.d. í frímínútum.  1. og 2. bekkur vinna sameiginleg verkefni. Kennari 2. bekkjar framfylgir því.

 

Uppfært september 2021