Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla - tillaga að breytingu

Viðmiðunarstundaskrá grunnskóla hefur verið óbreytt allt frá gildistöku aðalnámskrár grunnskóla 2011.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um tillögu að breytingu á gildandi viðmiðunarstundaskrá frá 2011.

Tilefni breytinga er viðvarandi slakur árangur nemenda í íslensku og náttúrufræði sem ítrekað hefur birst í niðurstöðum PISA, sem er alþjóðleg rannsókn á vegum OECD og er framkvæmd á þriggja ára fresti með þátttöku 15 ára nemenda. Næsta fyrirlögn PISA er áformuð vorið 2022.

Nú er í mótun menntastefna til ársins 2030 á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis í víðtæku samstarfi við hagsmunaaðila þar sem áhersla er á að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og geta lært.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið beitir sér jafnframt fyrir aukinni áherslu á íslensku í öðrum námssviðum og í samfélaginu almennt í samræmi við þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi vorið 2019. Þá er unnið að mótun starfsþróunarnámskeiða fyrir starfandi kennara sem ætlað er að efla leiðtoga á námssviðunum íslensku, náttúrufræði og stærðfræði, unnið að stofnun fagráða á sömu námssviðum og eftirfylgni með því að skólar uppfylli til fulls hlutfall lágmarkskennslutíma samkvæmt viðmiðunarstundaskrá grunnskóla í list- og verkgreinum.

Breytingarnar á viðmiðunarstundaskrá fela í sér að á yngsta stigi grunnskóla (1.-4. bekk) verður gert ráð fyrir að meiri tíma verði varið til íslensku, að meðaltali tæplega 80 mínútur á viku í hverjum árgangi. Á miðstigi grunnskóla (5.-7. bekk) er einnig gert ráð fyrir meiri tíma til íslenskukennslu að meðaltali tæplega klukkustund á viku í hverjum árgangi.

Með því fer hlutfall íslensku á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla úr 18.08% í 21.5%. Grunnskólar hafa svigrúm og sveigjanleika innan hvors stigs til að útfæra þessa aukningu. Jafnframt fellur niður svigrúm grunnskóla til ráðstöfunar tíma á yngsta- og miðstigi grunnskóla, en algengt er að skólar nýti hluta þess tíma til lestrar- og íslenskukennslu.

Á unglingastigi (8.-10. bekk) er gert ráð fyrir aukinni áherslu á náttúrugreinar og í stað þess verði dregið úr vali nemenda. Aukningin er veruleg og er að meðaltali 120 mínútur á viku í hverjum árgangi. Að sama skapi er dregið úr vali nemenda sem því nemur. Hlutfall náttúrugreina í viðmiðunarstundaskrá grunnskóla fer við þessa breytingu úr 8.33% í rúmlega 11%.

Ísland er nú með lægst hlutfall tíma til kennslu móðurmáls í 1.-7. bekk grunnskóla og einnig í náttúrufræði í 8.-10. bekk samanborið við nágrannalönd okkar. Með þessum breytingum færist íslensk viðmiðunarstundaskrá grunnskóla nær meðaltali í móðurmáli- og náttúrufræðigreinum hjá nágrannaþjóðaþjóðum okkar.

Stefnt er að því að breytingarnar taki gildi frá og með skólaárinu 2021-2022.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 30.09.2020 í samráðsgátt