Síma- og snjalltækjareglur

Samantekt gagnaöflunar um símareglur 2018-2019

Verklag:

Óskað var álits foreldra, starfsmanna og nemenda á símareglum sem settar voru haustið 2018 til að meta kosti þeirra og galla.

Foreldrum var bent á að koma skoðunum sínum á framæri í tölvupósti til skólans og í foreldrakönnun. Niðurstöður voru þær að foreldrar voru ánægðir með símareglurnar og studdu skólann eindregið í ákvörðun sinni.

Starfsmenn skólans studdu jafnframt eindregið símareglurnar en nokkur umræða var um framkvæmd og viðurlög.

Niðurstöður úr nemendakönnun:

Nemendur höfðu flestir skoðun á símareglunum og voru því viljugir til að svara.

Svörin voru opin þ.e nemendur gátu svarað skriflega og voru flokkarnir, styrkleikar – veikleikar – tækifæri - ógnanir og - annað.

 

Helstu niðurstöður SVÓT-greiningar nemenda:

Stór hluti nemenda nefndi jákvætt við símabannið í skólanum að meiri samskipti verða milli nemenda, frelsi er frá stöðugu áreiti símans, engin hætta er á myndatöku og truflun verður minni. 

 

Það sem helst var nefnt sem neikvætt við símabannið var að ekki væri hægt að hlusta á tónlist, flóknara væri að vera í samskiptum við foreldra, pirringur, feluleikur inná klósetti með símann ykist og þau vildu nota símann við námið.

 

Aðrar skoðanir sem mun færri nefndu komu einnig fram,  þau töldu neikvætt að tæknin væri framtíðin og ekki væri hægt að breyta henni, að erfitt væri að vera í samsiptum við vini sem búa annarsstaðar, það sé meiri hávaði í skólanum við bannið og samskipti við skólaliða séu verri.

Jákvæðir punktar sem færri nemendur nefndu voru: engar áhyggjur af samfélagsmiðlum, kynnist fleiri krökkum, skemmtilegra í frímínútum og fer meira út.

 

Niðurstaða

Símareglur verða áfram í gildi við Grunnskóla Húnaþing vestra.

 

Síma- og snjalltækjareglur

Uppfært 26. nóvember 2019

  1. Í Grunnskóla Húnaþings vestra skulu nemendur ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leiðin í matsal, að leikskóla og sundlaug teljast til skólalóðar. Símar skulu geymdir heima eða á öruggum stað í skólanum, s.s. tösku eða skáp. Slökkt skal á þeim eða þeir stilltir á hljóðlausa stillingu. Einstaka kennarar geta leyft símanotkun í sínum tímum vegna náms og er það bundið við kennslustofuna í þann tíma sem kennari ákveður svo.
  2. Í Grunnskóla Húnaþings vestra skal starfsfólk ekki nota síma meðal nemenda, hvorki í frímínútum eða í kennslustundum. Undantekning frá þessari reglu er starfsfólk frístundar sem skylt er að hafa frístundafarsíma við höndina og svara í hann þegar foreldrar hringja. Einnig skulu skólastjórnendur vera með síma sem símtöl úr aðalnúmeri flytjast í ef engin er við á skrifstofu. Einnig er kennurum heimilt að nota síma sem kennslutæki.
  3. Í styttri ferðum nemenda, s.s. gönguferðum er nemendum ekki heimilt að nota síma en þá skal starfsfólk taka með sér síma. Í lengri ferðum er nemendum heimilt að nota síma ef slíkt tilgreint í ferðaáætlun.
  4. Snjallúr skulu þannig stillt að á skólatíma og í frístund að þau gefi ekki frá sér hljóð og ekki sé hægt að hringja í þau, úr þeim eða hlustað. Allar breytingar á skráðri tilhögun nemenda í frístund skulu koma frá foreldrum til starfsmanna skólans.
  5. Nemendum er heimilt að nota spjald- og fartölvur í námi með samþykki kennara. Þá skulu nemendur tryggja að slík tæki séu ekki tengd samfélagsmiðlum í skólanum og ávallt geymd í kennslustofum á milli kennslustunda.
  6. Brjóti nemendur þessar reglur skal starfsfólk vísa þeim til skólastjórnenda/ritar og afhenda tækið. Nemendur geta svo sótt tækið í skóloalok. Nemendur hafa heimild til að neita að afhenda slík tæki og þá skulu foreldrar koma í skólann og ná í tækið áður en nemandi fer aftur í tíma.
  7. Brjóti starfsfólk þessar reglur skal skólastjóri ræða við viðkomandi.
  8. Þessar reglur og framkvæmd þeirra var endurskoðuð 2019.