Námsmat

 

Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í Grunnskóla Húnaþings vestra.

Með þessu skeyti eru foreldrar upplýstir um breytingar sem hafa orðið og eru framundan á námsmati í anda nýrrar aðalnámskár. Um tvennskonar mat er að ræða: hæfniviðmið og lykilhæfni. Hæfniviðmið segja til um hvað nemandinn á að vera fær um í hverri námsgrein en lykilhæfni er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans.

Undanfarið hafa kennarar metið nemendur með svonefndu hæfnikorti í Mentor. Á hæfnikorti eru þau hæfniviðmið  sem stefnt er að með námi nemenda í hverri námsgrein. Kennarar merkja inn hvort nemandi hefur náð viðkomandi hæfni eða þarfnast þjálfunar. Ef ekkert er merkt við hæfniviðmiðið táknar það oftast að vinna við það hefur ekki hafist. Foreldrar eru hvattir til að skoða námsmat barna sinna reglulega í Mentor.

Þegar foreldrar hafa skráð sig inn á Mentor sjá þeir GRÁAN glugga á skjánum og í honum stendur „Nýtt námsmat“ ef námsmat hefur verið skráð á nemandann sem foreldri hefur ekki skoðað áður. Þegar smellt er á gluggann kemur upp listi yfir þær námsgreinar sem búið er að meta. Smella þarf á hverja námsgrein til að skoða námsmatið. Eins og áður segir er námsmatið í formi orðaðra viðmiða sem stefnt er að með námi nemandans. Smella má á hvert viðmið til að skoða betur hver skráir námsmatið, hvað liturinn (tákn) námsmatsins stendur fyrir og einnig ef athugasemdir hafa verið skráðar. Á þessari slóð er stutt myndband frá Mentor um námsmat: https://www.youtube.com/watch?v=cKCW5q-_QZ8   

Almennt er notaður matskvarði í fjórum þrepum: Framúrskarandi, hæfni náð, þarfnast þjálfunar, hæfni ekki náð. 

Á þessari slóð er annað myndband sem sýnir foreldrum hvernig þeir geta sjálfir breytt stillingum sínum á foreldrasíðu Mentor: https://www.youtube.com/watch?v=oBQvcTvz92Q

Námsmat á skólaárinu og vitnisburður við skólalok að vori.

 

Lykilhæfni í Grunnskóla Húnaþings vestra er metin út frá sex mismunandi hæfniþáttum:
- Tjáning og miðlun.
- Skapandi og gagnrýnin hugsun.
- Nýting miðla og upplýsinga.
- Ábyrgð og mat á eigin námi.
- Sjálfstæði
- Samvinna

 

Lögð er áhersla á að meta alla sex þættina en í sumum fögum er hluti þáttanna metin og þá er það skilið eftir autt og mat á þeim þætti kemur ekki fram. Í Grunnskóla Húnaþings vestra eru viðmið fyrir lykilhæfni stigvaxandi eftir árgöngum, þau verða kynnt sérstaklega.

 

Hæfniviðmið í Grunnskóla Húnaþings vestra

 

Október

Að hausti eru foreldrar og nemendur boðaðir í viðtal í byrjun október. Þá er farið almennt yfir stöðu nemandans og skólabyrjun. Almennt hafa ekki mörg markmið verið metin á þessum tímapunkti og því ekki um formlega upplýsingagjöf um stöðu í námi.

 

Janúar

Í janúar eru foreldrar og nemendur boðaðir í viðtal þar sem farið er formlega yfir námsmat. Daginn áður kl. 13:00 er búið að færa inn á hæfnikort nemandans það mat sem á við hverju sinni og það sem áður hefur verið metið. Mikilvægt er að foreldrar kynni sér hæfnikort nemandans þar sem eingöngu er afhent samantekt í viðtali. Þeir sem ekki ná tökum á umhverfinu í Mentor geta óskað eftir hæfnikortinu á PDF formi í tölvupósti, grunnskoli@hunathing.is. Hæfnikort nemandans er svo hægt að skoða með umsjónarkennaranum í viðtalinu ef kennari, foreldri eða nemandi óska þess. Spurningar um hæfnikort í námsgreinum sem umsjónarkennari kennir ekki skal beina til viðkomandi kennara. Hægt er að fá viðtal hjá öllum kennurum skólans á viðtalsdegi.

 

Hér til hliðar er dæmi um samantekt sem afhent er í viðtali við umsjónarkennara í janúar. Til að skoða hvaða hæfniviðmið er átt við í þessari samantekt þarf að skoða hæfnikort nemandans í viðkomandi námsgrein.

Mars

Í mars er einnig viðtalsdagur til að fylgja efir námi nemandans. Þá munu foreldrar fá símtal frá umsjónarkennara til að fara yfir stöðu nemandans. Einnig er hægt að fá viðtal við aðra kennara.

 

Skólaslit

Nemendur fá svo vitnisburð afhentan á skólaslitum grunnskólans. Vitnisburður er í formi hæfnieinkunna í bókstöfum A-D út frá matsviðmiðum Aðalnámskrár.

 

Tekið skal fram að námsmat er í þróun og því má búast við að námsmat taki frekari breytingum á næstu skólaárum samhliða því sem vefviðmótið Mentor þróast.