- HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR
- Eyðublöð
- Nám & kennsla
- Nemendur og foreldrar
- STEFNUR OG ÁÆTLANIR
- Menntastefna Húnaþings vestra
- FRÆÐSLUEFNI
Í framhaldi af umræðu í sjónvarpi og blöðum um orkudrykkjaneyslu ungmenna vill skólinn benda á að þónokkur fjöldi nemenda fer í morgun- og hádegisfrímínútum í búðina og kaupir orkudrykki og sælgæti. Við höfum einnig fengið ábendingar um að nemendur helli orkudrykkjum í vatnsbrúsa sem þau nota í skólanum. Við teljum að foreldrar viti fæstir af þessu og viljum hvetja til umræðu meðal foreldra og barna.
Einnig hefur skólinn óskað samstarfs við Kaupfélag Vestur Húnvetninga. Skólinn mun fá fjöldatölur um komur nemenda í morgun- og hádegisfrímínútum í kaupfélagið til að deila með foreldrum á heimasíðu skólans. Rétt er að taka fram að ekki er um að ræða að nafngreinanlegar upplýsingar, einungis fjölda nemenda sem kemur á skólatíma.
Á heimasíðu landlæknis kemur eftirfarandi fram um neyslu koffíns:
Koffín er vanabindandi efni og börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess. Koffín veldur m.a. útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra.
Frá náttúrunnar hendi kemur koffín meðal annars fyrir í kaffi, tei og kakói. Koffín er einnig notað sem bragðefni og m.a. sett í dökka kóladrykki, jafnt sykraða og sykurlausa, auk orkudrykkja.
Á undanförnum árum hefur úrval drykkja sem innihalda koffín aukist umtalsvert í matvöruverslunum. Aðallega er um er að ræða orkudrykki og svokölluð orkuskot, sem innihalda mikið magn koffíns (> 150 mg/l), auk annarra örvandi efna s.s. ginseng og guarana. Flestir orkudrykkir innihalda að auki jafnmikið eða meira af viðbættum sykri og gosdrykkir sem getur stuðlað að ofþyngd og offitu. Auk þess sem sykurinn skemmir tennurnar.
Koffín er vanabindandi efni og börn og unglingar sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess. Koffín veldur útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra. Einnig hefur koffín áhrif á öndun, meltingu og þvagmyndun. Mikil neysla á koffíni getur valdið höfuðverk, svima, skjálfta, svefnleysi, hjartsláttartruflunum og kvíða. Einstaklingsbundið er hvenær of mikið magn koffíns fer að valda neikvæðum áhrifum.
Hámarksneysla koffíns á dag fyrir mismunandi hópa: | |
Fullorðnir | 400 mg koffín |
Barnshafandi konur | 200 mg koffín |
Börn og unglingar | 2,5 mg koffín/kg líkamsþyngdar |
Dæmi um magn koffíns í drykkjum og súkkulaði: |
|
Orkuskot ( 50-60 ml) | 80- 220 mg |
Orkudrykkur (500ml) allt að | 160 mg koffín |
Kaffibolli (200ml) | 100 mg koffín |
Kóladrykkur (500ml) | 65 mg koffín |
Svart te (200ml) | 35 mg koffín |
Dökkt súkkulaði (50g) | 33 mg koffín |
Börn og unglingar
Hámark daglegrar koffín-neyslu fyrir börn og unglinga er sett við 2,5 mg fyrir hvert kíló líkamsþyngdar sem þýðir að barn sem vegur 20 kíló ætti ekki að neyta meira en 50 mg af koffíni á dag. Til samanburðar er gott að vita að hálfur lítri af kóladrykk gefur um 65 mg af koffíni. Ekki ætti að nota orkudrykki til að slökkva þorsta eftir íþróttaæfingar eða á meðan á þeim stendur. Það getur aukið vökvatap líkamans enn frekar vegna áhrifa koffíns á þvagmyndun. Einnig getur neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu valdið hjartsláttartruflunum.
Innihaldi drykkur koffín kemur það fram í innihaldslýsingu. Ef koffín magn fer yfir 150 mg/l er hann merktur á eftirfarandi hátt: „Inniheldur mikið af koffíni" (á ensku: ,,High caffeine content"). Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn barna og unglinga fylgist vel með því að þau séu ekki að neyta orkuskota og koffínríkra orkudrykkja og börn yfirhöfuð ekki orkudrykkja. Drykkirnir henta þeim ekki.
Kirkjuvegi 1
Sími 455-2900 Frístund: 895-2915 |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 455-2900 / grunnskoli@skoli.hunathing.is