Málæði annað árið í röð

Við í skólanum erum afar stolt af Emelíu Írisi, sem á eitt af þremur lögum sem valin voru til frekari vinnslu í Málæði.  Við munum öll eftir smellinum Hringiða sem Vigdís Hafliðadóttir söng svo eftirminnilega í fyrra eftir að Húsbandið sendi inn lag í keppnina.


Málæði er skapandi keppni á vegum List fyrir alla, þar sem nemendur alls staðar af landinu eiga kost á að senda inn eigin tónverk og texta.

Emelía Íris samdi lag og tvo texta sem hún sendi inn í keppnina og hefur okkur verið tilkynnt að lagið hennar er varð fyrir valinu og mun Friðrik Dór flytja lagið í viku íslenskunnar á RÚV 16. nóvember.


Guðni Þór aðstoðaði Valda við upptökur á laginu, en á mánudag koma Friðrik Dór og Vignir Snær í skólann ásamt tökuliði frá RÚV og forsvarsmönnum Málæðis. Þau munu vinna með Emelíu Írisi að laginu og taka það upp fyrir útgáfu.

Auk þess mun hópur nemenda úr húsbandinu og tónlistarskólanum taka þátt í verkefninu og leggja sitt af mörkum í að búa til endanlega útgáfu af laginu.
Þetta er einstakt tækifæri fyrir nemendur að fá að vinna með reynslumiklum listamönnum og kynnast skapandi ferli tónlistarframleiðslu að innan.  Það eru líka mikil forréttindi fyrir okkur að hafa Valda hér innanborðs sem heldur utan um svona verkefni eins og honum einum er lagið.

Við óskum Emelíu Írisi innilega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgjast með framhaldinu!