LESFERILL 2017 - NIÐURSTÖÐUR OG VIÐBRÖGÐ

                                                     

LESFERILL 2017 - NIÐURSTÖÐUR OG VIÐBRÖGÐ

Nú er nýlokið lestrarprófum hjá öllum nemendum í Grunnskóla Húnaþings vestra og á næstu dögum fá foreldrar upplýsingar frá umsjónarkennurum og/eða íslenskukennurum um stöðu einstakra  nemenda. Prófin nefnast Lesferill og samanstanda af mörgum prófum en þessar niðurstöður byggja á lesfimi, lesin orð á mínútu. Rétt er að benda á vegna umræðunnar um áherslu á hraðapróf að undirstaða lesskilnings er hraði og sjálfvirkni í lestri og því gefa prófin mjög góða mynd af stöðu nemenda í lestri.

Grunnskóli Húnaþings vestra metur markvisst hverju sinni aðferðir og árangur í námi og kennslu og út frá gögnum samræmdra prófa er staða skólans góð, en forspá segir okkur að færni í lestri og lesskilningi muni minnka í samræmi við niðurstöður á landsvísu og PISA kannanir. Niðurstöður Lesferilsprófanna í janúar benda okkur einnig á þá köldu staðreynd að þjálfun í lestri er ábótavant hjá allt of stórum hópi nemenda skólans.

Í september 2015 skrifaði sveitarstjóri undir þjóðarsáttmála um læsi fyrir hönd Húnaþings vestra og á sama tíma gaf menntamálaráðherra út Hvítbók, sem gerir skýra kröfu á að 90% nemenda eigi að geta lesið sér til gagns við lok grunnskóla. Þar og í grunnskólalögum kemur fram að lestrarfærni og þjálfun sé sameiginleg ábyrgð foreldra og skóla.

Tafla 1

Í töflu 1 hér að ofan sést staða skólans í janúar 2017. Rétt er að taka fram að þar er núverandi staða borin saman við viðmið sem nemendur eiga að hafa náð í vor og því er einhver munur eðlilegur. Hann er hins vegar of stór til þess að líta fram hjá honum og er því miður vísbending um að lestrarfærni fari hrakandi. 

Til þess að bregðast við þessu er nauðsynlegt að foreldrar taki virkan þátt í lestrarþjálfun, allt frá 1. bekk til 10. bekkjar og nemendur munu koma heim með blöð þar sem foreldrar kvitta fyrir að lesið sé í a.m.k. 10 mínútur á dag, það verður nánar útskýrt í bréfum frá kennurum til hvers bekkjar/nemanda. Þetta er nauðsynlegt til að útiloka sértækan lestrarvanda og ef ekki er kvittað þá getur skólinn ekki útilokað þjálfunarleysi. Foreldrar geta alltaf óskað ráðgjafar eða upplýsinga hjá umsjónarkennara / íslenskukennara ef einhverjar spurningar vakna.

Aðferðir sem foreldrar geta nýtt eru margvíslegar:

• Lesa daglega í 10 – 15 mínútur – hafa fastan tíma.

• Velja hæfilega þunga texta en samt fjölbreytta.

• Lesa upphátt.

• Lesa til skiptis.

• Lesa bækur saman og ræða efni textans (söguþráð, persónur, boðskap o.fl.).

• Rýna í orðin og byggja upp orðaforða.

• Hafa athygli á lestri barnsins.

• Endurtekinn lestur eykur sjálfvirkni og byggir upp sjálfvirkan orðaforða.

• Skapa notalegt andrúmsloft og afslappað – gæðastundir.

• Nýta fjölbreytt tækifæri; það má lesa fyrir ólíka aðila s.s. systkini, gæludýr o.fl.

• Hlusta á hljóðbækur t.d. í bílnum.

Samkvæmt rannsókn National Reading Panel (2000) er árangursríkast til að efla lesfimi að nota kennsluaðferðir sem byggja á stýrðum, endurteknum raddlestri:

– Endurtekinn lestur (lesa aftur og aftur)

– Bergmálslestur (nemandi les og foreldri/kennari endurtekur)

– Framsögn (æfing í að lesa fyrir áheyrendur)

– Leikrænn lestur (lesa leikrit eða samtöl með tilþrifum)

– Myndatextalestur (lesinn upphátt textinn í sjónvarpinu)

– Hljóðbókalestur (hlusta og fylgjast með)

– Hraðlestur (lesa hratt, nota fingurinn til að fylgja línum)

– Paralestur (tveir og tveir lesa fyrir hvorn annan)

– Kórlestur (tveir eða fleiri lesa á sama tíma sama texta)

– Mínútulestur (hvað kemst ég langt á mínútu?

Lestur í fríum, s.s. jóla-, páska- og sumarfríum er mikilvægur þar sem algengt er að nemendur tapa færni sem þeir hafa náð að vori. Algengt er að heila önn taki að vinna upp færni í lestri eftir sumarfrí ef engri lestrarþjálfun er sinnt heima. Við endurskoðun læsisstefnu skólans verða gefin út viðmið um þjálfun sem kemur í hlut foreldra á skólatíma og í fríum. Það verður kynnt sérstaklega þegar að því kemur.

Gagnlegar upplýsingar má finna á heimsíðu skólans, t.d. glærur frá kynningu Menntamálastofnunar fyrir foreldra 8. febrúar. Einnig eru góðar leiðbeiningar og fróðleikur á http://lesvefurinn.hi.is/

Tafla 2 - maíviðmið fyrir lesfimipróf Lesferils

 

Þó að þessar niðurstöður ýti við okkur er lítið mál að koma í veg fyrir að lestarfærni nemenda hraki. Það er ekkert í nemendahópnum sem gefur til kynna annað en að um þjálfunarleysi sé að ræða, sem við náum ekki eingöngu að rétta af í skólanum. Nemendur hafa allir mjög góð tækifæri til að ná góðum árangri, það þarf bara svolitla þrautseigju og þar skiptir liðsinni foreldra sköpum. Þessi þrautseigja felst í daglegum lestri upphátt heima sem skilar bæði góðum námsárangri og ánægulegum samverustundum.

Foreldrar, leggið vinnu í að velja aðferð sem hentar ykkur og börnum ykkar til þess að þið og þau fáið sem mest út úr lestrinum.

Bestu kveðjur í baráttunni

 

                                                           Sigurður Þór Ágústsson

                                                           Skólastjóri Grunnskóla Húnaþings vestra