Jólahugleiðing skólastjóra

 

 

Jólin eru persónuleg upplifun og hver og einn á sínar minningar um þau. Jólahaldið byggir á samofnum trúarlegum gildum og hefðum sem við námum við móðurkné og foreldrar okkar námu áður af foreldrum sínum. Jólahaldið á sér langa sögu siða og venja, formfast og hátíðlegt.

Í  Biblíunni er þess að vísu hvergi getið hvaða dag eða ár Jesús Kristur hafi verið fæddur, einungis að það hafi verið á dögum Heródesar konungs í Júdeu og Ágústusar keisara í Róm. Það var svo sem ekki við því að búast að það væri nákvæmlega skrásett hvenær barn trésmiðs í Galíleu væri fætt en tveimur öldum eftir fæðingu hans voru dagsetningarnar 6. janúar og 25. desember almennt útbreiddar sem fæðingardagur hans. Það er áhugavert að skoða hvernig saga jólanna teygir hátíðleika sinn í gegnum veraldarsöguna, tímatalið og aðstæður á Íslandi í fyrndinni. Hátíðleiki sem snertir sömu tilfinningastrengi þrátt fyrir ólík tilefni, trúarbrögð og aðstæður.

Ef horft er til hinna fornu norrænu jóla, skammdegishátíðar og birtingar ljóssins er að vísu fásinna að ákvarða tímasetningu jóla miðað við tímatal nú á dögum. Á þeim tíma höfðu menn einungis sól og tungl til að miða við og langlíklegast að jól í heiðnum sið hafi rokkað til miðað við næstu tunglfyllingu eftir sólhvörf, líkt og páskarnir gera.

Í elstu varðveittu lagatextum á Íslandi segir að hina  allra heilögustu daga jólanna megi einungis vinna það allra nauðsynlegasta, hára fénu, mjólka kýrnar og moka flórinn. Mönnum leyfðist einnig að slátra því sem neyta þurfti um jól og hita áfengan drykk. Allt bendir til þess að á Íslandi hafi jólamatur verið kjötmeti af einhverju tagi og upphaflega nýtt kjöt; kinda-, svína-, geita- eða nautgripakjöt sem og aligæsir. Eftir kuldaskeið sem varaði sleitulítið í nokkrar aldir hafði gróðri á Íslandi  hallað svo að útigangur varð of erfiður fyrir önnur húsdýr en sauðkindina og hestinn. Hrossakjöt virðist þó aldrei hafa verið hátíðarmatur en á bæjum þar sem möguleiki var á haga fram að jólum var gjarnan geymd ein ær frá hausti og var hún nefnd jólaærin. Næsti kosturinn við nýtt kjöt var hangikjötið sem varð svo algengasti jólamaturinn á Íslandi.  Þeir sem sem bjuggu á rjúpnaslóðum veiddu rjúpur í matinn til að fá ferskt kjöt en það voru fyrst og fremst efnaminni bændur og rjúpur því upphaflega jólamatur fátækra. Brauðmeti var af skornum skammti til forna og til þess að allir gætu fengið brauð á jólunum voru búnar til næfurþunnar kökur og til að gera þær sem hátíðlegastar voru skorin í þær falleg munstur. Þannig varð til hið sérkennilega laufabrauð.

Jólaskreytingar komu almennt mun seinna til sögunnar, en allt frá elstu heimildum virðist það hafa verið óskráð regla að þrífa og prýða heimili fyrir jólin. Það sama átti að sjálfsögðu við um mannfólkið en fyrr á öldum var það vandkvæðum bundið þar sem kuldi, snjór og ísar útilokuðu víðast hvar að fyllt væru ker eða balar af heitu vatni fyrir heimilisfólkið og útilokað að hita svo mikið vatn á skömmum tíma.  Börn voru gjarnan þrifin í eldhúsi með þvottastykki og sögur eru um að karlar hefðu þvegið sér í fjósi. Öllu meiri leynd hvílir yfir hvar og hvernig konur þrifu sig.

Það er því æði margt í undirbúningi jólanna sem við þekkjum af eigin reynslu en á sér aldagamla hefð á Íslandi, allt til þess að gera sér dagamun og skapa hátíðleika.  Margir þættir hafa  bæst við í áranna  rás en flestir þeirra eru ótrúlega nýlegir í sögulegu samhengi og koma fram þegar líður á 20. öldina. Það gerðist samhliða auknum innflutningi og breyttum híbýlum og lifnaðarháttum.

Af hverju hlökkum við til jólanna? Vissulega þykir börnum (og flestum fullorðnum) gaman að fá gjafir, en það er fyrst og fremst samveran, hátíðleikinn og hlýjan sem gerir jólin eftirsóknarverð. Það er sami kjarninn sem skiptir mestu máli, bæði nú og fyrr:  að finna  innri frið og deila gleðinni með okkar nánustu – fjölskyldu og vinum. Einmitt á slíkum tímamótum nötra tilfinningastrengir slaghörpunnar innra með okkur – hver og einn þeirra með ólíkan tón sem tengist jólahaldi fortíðarinnar – dögunum sem aldrei koma aftur. Þess vegna er mikilvægt að við meðvitað búum til minningar, góðar minningar, fyrir okkur og okkar nánustu. Það er auðvelt  að eignast alls kyns dót en minning af góðri stund með þeim sem okkur þykir vænt um er dýrmætari en allt heimsins glys.

Við skulum aldrei gleyma hversu dýrmætt er að sækja heim ættingja okkar og vini og deila gleðinni með þeim, það eru stundir sem gefa mikið af sér og geta læknað erfið sár. Með þessari yfirborðskenndu samantekt úr bókinni “Saga jólanna”, í bland við jólahugleiðingar, óska ég nemendum, starfsfólki, foreldrum og skólasamfélaginu öllu gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

 

Sigurður Þór Ágústsson

Skólastjóri