Hvernig á maður að haga sér í sóttkví?

 

 

Þetta þarf að forðast

Einstaklingur í sóttkví á að halda sig heima við og hafa bein samskipti við sem fæsta, líka þá sem eru á öðrum heimilum í sóttkví.

Einstaklingur í sóttkví má ekki fara til vinnu eða í skóla þar sem aðrir eru. Þá má hann ekki sækja mannamót af nokkru tagi eða staði þar sem margir koma saman, s.s. verslanir, líkamsræktarstöðvar, sundlaugar, hesthús, reiðhallir, sameiginleg útivistarsvæði og ekki fá gesti inn á heimili sitt.

Einstaklingur sem ekki er í sóttkví inná heimili þar sem aðrir eru í sóttkví þarf að halda ákveðni fjarlægð við aðra heimilismenn, sofa í öðru herbergi, þessi aðili þarf kannski að versla inn, fara í bókasafnið og fleira. Allir á  heimilinu þurfa að vera duglegir að þrífa, sérstaklega eldhús og salerni.


En hvað má einstaklingur í sóttkví gera?

Sértu í sóttkví máttu fara út á svalir eða í garð við heimili þitt, en ef aðrir eru þar líka þarftu að halda þig í minnst eins til tveggja metra fjarlægð frá þeim. Þú mátt einnig fara í gönguferðir en þarft þá að halda þessari sömu fjarlægð frá öðrum vegfarendum.

Þú mátt fara í bíltúr en ekki eiga samskipti við aðra í návígi, til dæmis skjótast inní sjoppu eða inná veitingastað. Þú mátt fara út með heimilissorp, en þarft þá að huga sérlega vel að hreinlæti, sinna handhreinsun vel og strjúka yfir snertifleti með sótthreinsi.


Hvernig getum við skipulagt daginn okkar?

Mikilvægt er að gera sér stundaskrá sem allir á heimilinu gætu nýtt sér. Hér er smá sýnishorn:

  • kl. 9.30         Morgunmatur
  • kl.10.00         Heimanám/lærdómur
  • kl. 12.00       Hádegismatur
  • kl. 13.00        Göngutúr
  • kl. 14.00       Frjáls tími
  • kl. 15.30       Hressing
  • kl. 16.00       Hreyfing

 

Hægt er að leika sér að þessu fram og til baka. Gott er ef börn og unglingar geti verið í samskiptum við sína vini í gegnum tölvur og snjalltæki og þá væri hægt að nota tímann þegar búið er að borða, í frjálsa tímanum, seinnipartinn og á kvöldin.

Það er líka gott að setja inn tíma fyrir svefn því það er álag að vera í sóttkví og skiptir því svefninn miklu máli eins og önnur rútína.      

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis vill árétta eftirfarandi:

Einstaklingur fer í sóttkví ef hann hefur:

  • Mögulega umgengist einstakling með nýja kórónuveirusýkingu
  • Verið á áhættusvæði en er ekki ennþá veikur sjálfur.

Aðrir á heimilinu sem ekki voru útsettir fyrir smitinu þurfa EKKI í sóttkví. Ef um ungt barn er að ræða er nauðsynlegt að fullorðinn einstaklingur fari í sóttkví með barninu.

Mikilvægt er að skipuleggja umgengni á heimilinu þannig að þeir sem eru í sóttkví og hinir séu sem allra minnst á sömu svæðum íbúðarinnar. Í sameiginlegum rýmum eins og á salerni og í eldhúsi þarf að gæta sérstaks hreinlætis.

Sóttkví vegna COVID-19 eru 14 dagar frá þeim degi sem einstaklingur var nálægt smituðum einstakling. Ef einstaklingur í sóttkví fær einkenni á hann að hringja í heilsugæsluna sína næsta virka dag til að fá sýnatöku.

Frekari leiðbeiningar vegna sóttkvíar í heimahúsi er að finna á https://www.covid.is/flokkar/sottkvi.is og www.landlæknir.is

Vinsamlega kynnið ykkur leiðbeiningarnar vel. Ef spurningar vakna má hafa samband við netspjall á www.heilsuvera.is