Heimsókn biskups

Frú Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands heimsótti skólann í gær. Biskup, biskupsritari og sóknarprestur heilsuðu upp á starfsfólk að morgni dags, drukku kaffisopa og spjallað var um daginn og veginn. Eftir að kennsla hófst var stuttur fundur með skólastjóra þar sem hann kynnti helstu áherslur og sögu skólans, samfélagsgerð og samstarf skólans og samfélagsins alls. Athygli vakti hvað sveitarfélagið og samfélagið allt stendur vel að skólanum.

Að því loknu var gengið í stofur þar sem biskup fékk að sjá hvaða verkefni nemendur á ýmsum aldri voru að vinna, húsnæði skoðað og framtíðaráform um viðbyggingu kynnt. Við þökkum biskupi kærlega fyrir heimsóknina og áhugann sem skólanum er sýndur með þessari heimsókn.