Fiðringur á Norðurlandi

Það var sannkölluð sigurför þegar nemendur í valgreininni Fiðringur héldu til Akureyrar í gær til að taka þátt í Fiðring á Norðurlandi. Fiðringur á Norðurlandi er hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8.-10. bekk í anda Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi. 

Unglingarnir okkar gerðu sér lítið fyrir og sigruðu keppnina með áhrifamiklu og metnaðarfullu atriði sem fjallaði um baráttu kvenna í gegnum tíðina en hópurinn fékk innblástur eftir að 10. bekkur fékk fræðslu um Vigdísi Finnbogadóttur og líf hennar en þá áttaði hópurinn sig á því að barátta kvenna hefur verið löng og ströng. Einnig höfðu núverandi atburðir úti í heimi áhrif á ákvörðun þeirra að fjalla um baráttu kvenna.  Atriðið fékk frábærar undirtektir og stóð hópurinn sig með mikilli prýði, bæði á sviði og bak við tjöldin.

Við erum óendanlega stolt af þessum hæfileikaríku og kraftmiklu unglingum sem eiga framtíðina fyrir sér. Þeir hafa með vinnu, elju og sköpunarkrafti sýnt hvað hægt er að ná langt þegar hugmyndir, samvinna og metnaður fara saman.

Hlekk á upptöku af atriðinu má nálgast hér.

Til hamingju, kæru nemendur.