- HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR
- Eyðublöð
- Nám & kennsla
- Nemendur og foreldrar
- STEFNUR OG ÁÆTLANIR
- Menntastefna Húnaþings vestra
- FRÆÐSLUEFNI
Eins og fram kom á skólasetningu stendur til að leyfa ekki notkun farsíma og snjallúra á skólatíma og í frístund. Ástæður þess eru fyrst og fremst tvíþættar; ný persónuverndarlög og vísbendingar um að símar geri nemendum ógagn í námi og félagslegum samskiptum.
Persónuverndarlög gera mjög strangar kröfur til skóla að myndbirtingar eða myndskeið verði ekki tekin á vitundar og samþykkis. Vandséð er hvernig starfsfólk skólans getur framfylgt þessum lögum ef nemendur og starfsfólk eru með síma í frímínútum eða tímum.
Hvað varðar vísbendingar um ógagn í námi og félagslegum samskiptum má benda á lokaverkefni Hrafnhildar Rósar Valdimarsdóttur (2017) sem er stutt margvíslegum rannsóknum. Þar kemur meðal annars fram að unglingar kjósa heldur að eiga í samskiptum á samskiptasíðum og spjallborðum en maður á mann. Mörgum þeirra finnst þeir eiga auðveldara með að tjá tilfinningar sínar og ræða um viðkvæm málefni í gegnum netið, telja jafnvel að samskipti þeirra við vini séu betri og nánari á þann hátt. Rannsóknir sýna að börn geta þróað félagsfærni sína með netnotkun, þar sem þau fái þar aukin tækifæri til þess að eiga samskipti, spila leiki og styrkja vinasambönd. Hins vegar þegar börn og unglingar eru farin að tapa svefni yfir að missa af einhverju á samfélagsmiðlum, eyða löngum stundum fyrir framan skjáinn á kostnað hreyfingar, lærdóms og samveru við fjölskyldu þá er tækjanotkunin orðin vandamál. Vegna þeirrar gagnvirku tækni sem spjaldtækin búa yfir, virðast þau vera meira ávanabindandi heldur en aðrar tölvur. Með snjallsímann öllum stundum í vasanum er hægt að nálgast afþreyingarefni á mjög auðveldan hátt og af þeim sökum getur fíkn í snjallsíma verið sterkari heldur en önnur tölvufíkn.
Það er því trú okkar í skólanum að það sé skynsamlegt, nemendum fyrir bestu og námslega og félagslega nauðsynlegt að nemendur fái andrými án síma á skólatíma og í frístund. Að sjálfsögðu munu gilda sömu reglur um starfsfólk innan um nemendur, enda símar í hverri kennslustofu og því auðvelt að kalla til aðstoð eða ná í starfsfólk ef þörf krefur.
Stefnan er sú að símar og snjallúr verði heima, í töskum eða úlpum á skólatíma (frá því að nemendur koma í skólann og þar til þeir fara heim) og í frístund.
Þessi stefna verður tekin til umræðu í nemendaráði, skólaráði og fræðsluráði. Foreldrum, nemendum og starfsfólki er bent á að koma athugasemdum til skólastjórnenda, skólaráðs eða fræðsluráðs. Skólaráðsfundur verður 20. september kl. 15:00 og fræðsluráðsfundur 26. september.
Skólastjóri
Kirkjuvegi 1
Sími 455-2900 Frístund: 895-2915 |
Skrifstofa skólans er opin frá |
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 455-2900 / grunnskoli@skoli.hunathing.is