7. bekkur sigurvegari í hurðaskreytingakeppni

Á uppbrotsdegi í Grunnskóla Húnaþings vestra var brugðið á það ráð að halda jólaskreytingakeppni milli bekkja og voru hurðir á skólastofum skreyttar. 

Mikill metnaður var lagður í skreytingarnar og báru þær með sér mikla hugmyndauðgi nemenda. 

Dómnefnd skipuðu Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri  og Elín Jóna Rósinberg sviðsstjóri fjármála- og stjórnsýslu – Jónurnar. 

Dómnefndinni var mikill vandi á höndum og eiga allir bekkir skilið viðurkenningu fyrir fallegar skreytingar. Eftir nokkra yfirlegu tók dómnefndin sér hlé frá störfum og varð þeim Jónunum ekki svefnsamt fyrir valkvíða. En nýr dagur leit ljós og þá þurfti dómnefndin að taka afstöðu en afar erfitt var að gera upp á milli allra þessara glæsilegu skreytinga. 

Dómnefnd þakkar traustið og vonast til að þessi skemmtilega hugmynd verði að hefð í Grunnskóla Húnaþings vestra.

Niðurstaða svefnlausrar dómnefndar:   Eftir mikla yfirlegu stóðu þrjár myndir eftir og þá þurfti að taka erfiða ákvörðun.  Að lokum stendur uppi einn sigurvegari.  – Trölli sem ekki stal jólunum.

Allar hurðaskreytingar fengu umsögn sem má lesa hér.

Umögn dómnefndar um sigurmyndina: 

Karaktereinkenni Trölla komast frábærlega til skila – jólapirringurinn út af jólastússinu skín úr augunum á honum. 

Mat dómnefndar er að Trölli hljóti 1. sætið í hurðakeppninni 2020.