Orkudrykkjaneysla á skólatíma

Skólinn óskaði fyrr í vetur eftir samstarfi við Kaupfélag Vestur Húnvetninga um komur nemenda til að versla orkudrykki. Rétt er að taka fram að ekki er um að ræða að nafngreinanlegar upplýsingar, einungis fjölda nemenda sem kemur á skólatíma.  Í ljós kom að eftir að byrjað var að fylgjast með þá hefur greinilega dregið úr kaupum á orkudrykkjum. Hinsvegar eru enn nokkrir nemendur eldri bekkja sem koma reglulega og versla sér orkudrykki. Skólinn hvetur því alla foreldra til að ræða við börn sín um alvarleg áhrif mikillar orkudrykkjaneyslu en mikil neysla getur t.a.m valdið miklum líkamlegum og andlegum veikindum.

 

Á heimasíðu landlæknis kemur eftirfarandi fram um neyslu koffíns:

Koffín er vanabindandi efni og börn og unglingar eru sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess. Koffín veldur m.a. útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra.

Frá náttúrunnar hendi kemur koffín meðal annars fyrir í kaffi, tei og kakói. Koffín er einnig notað sem bragðefni og m.a. sett í dökka kóladrykki, jafnt sykraða og sykurlausa, auk orkudrykkja.

Á undanförnum árum hefur úrval drykkja sem innihalda koffín aukist umtalsvert í matvöruverslunum. Aðallega er um er að ræða orkudrykki og svokölluð orkuskot, sem innihalda mikið magn koffíns (> 150 mg/l), auk annarra örvandi efna s.s. ginseng og guarana. Flestir orkudrykkir innihalda að auki jafnmikið eða meira af viðbættum sykri og gosdrykkir sem getur stuðlað að ofþyngd og offitu. Auk þess sem sykurinn skemmir tennurnar.

Koffín er vanabindandi efni og börn og unglingar sérstaklega viðkvæm fyrir áhrifum þess. Koffín veldur útvíkkun æða, örari hjartslætti og auknu blóðflæði til allra líffæra. Einnig hefur koffín áhrif á öndun, meltingu og þvagmyndun. Mikil neysla á koffíni getur valdið höfuðverk, svima, skjálfta, svefnleysi, hjartsláttartruflunum og kvíða. Einstaklingsbundið er hvenær of mikið magn koffíns fer að valda neikvæðum áhrifum.

Börn og unglingar

Hámark daglegrar koffín-neyslu fyrir börn og unglinga er sett við 2,5 mg fyrir hvert kíló líkamsþyngdar sem þýðir að barn sem vegur 20 kíló ætti ekki að neyta meira en 50 mg af koffíni á dag. Til samanburðar er gott að vita að hálfur lítri af kóladrykk gefur um 65 mg af koffíni. Ekki ætti að nota orkudrykki til að slökkva þorsta eftir íþróttaæfingar eða á meðan á þeim stendur. Það getur aukið vökvatap líkamans enn frekar vegna áhrifa koffíns á þvagmyndun. Einnig getur neysla á orkudrykkjum samhliða hreyfingu valdið hjartsláttartruflunum.

Innihaldi drykkur koffín kemur það fram í innihaldslýsingu. Ef koffín magn fer yfir 150 mg/l er hann merktur á eftirfarandi hátt: „Inniheldur mikið af koffíni" (á ensku: ,,High caffeine content"). Mikilvægt er að foreldrar og forráðamenn barna og unglinga fylgist vel með því að þau séu ekki að neyta orkuskota og koffínríkra orkudrykkja og börn yfirhöfuð ekki orkudrykkja. Drykkirnir henta þeim ekki.