Ómar orðabelgur - leiksýning

Ómar orðabelgur er nýtt, íslenskt barnaleikrit, sem Þjóðleikhúsið frumsýndiá Patreksfirði 2. september og býður í vetur börnum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni að sjá.

Sýning verður í Félagsheimili Hvammstanga kl. 10:00 fyrir nemendur leikskóla og 1. bekk mánudaginn 9. september.


Eitt af markmiðum Þjóðleikhússins er að bjóða börnum að upplifa töfra leikhússins, óháð búsetu og efnahag, og því stendur það fyrir sérstökum boðssýningum á fjölmörgum stöðum á landinu undir yfirskriftinni „Sögustund”. Sögustund er nú sýnd ellefta leikárið í röð. Fyrst um sinn var boðið upp á sýningar í Þjóðleikhúsinu fyrir börn í elstu deildum leikskóla á höfuðborgarsvæðinu, en fyrir þremur árum var ákveðið að stækka verkefnið og ferðast einnig út á land með sýningu fyrir börn í elstu bekkjum leikskóla og yngstu bekkjum grunnskóla.


Að þessu sinni býður Þjóðleikhúsið börnum að sjá splunkunýtt leikrit, Ómar orðabelg, eftir Gunnar Smára Jóhannesson í leikstjórn Björns Inga Hilmarssonar. Í sýningunni sláumst við í för með Ómari orðabelg í leit að uppruna orðanna. Hvaðan kemur orðið fíll? Afhverju segjum við fægiskófla? Er appelsína epli frá Kína? Ómar orðabelgur ferðast um heim orðanna og kynnist allskonar skrýtnum orðum, en eitt orð mun hann kannski aldrei skilja til fulls. Dauðinn. Hvað er að deyja? Og hvað gerist eftir dauðann? Dauðinn er orð sem allir þekkja en veit einhver hvað það þýðir í raun?


Tónlistarmaðurinn Prins Póló semur sérstakt lag fyrir sýninguna. Mathilde Anne Morant sér um leikmynd og búninga, og Juliette Louste um lýsingu.