Erindi til Byggðarráðs

Nemendur á mið- og unglingastigi héldu málstofur á Umhverfisdeginum okkur í síðustu viku.  Hér fyrir neðan má lesa erindi sem nemendur sendu Byggðarráði eftir þessa vinnu.

 

Byggðarráð Húnaþings vestra

Niðurstöður Umhverfisdags leik-, grunn- og tónlistarskóla.

Þann 20. september héldu leik-, grunn- og tónlistarskóli sameiginlegan Umhverfisdag.  Var þetta frumraun og erum við mjög ánægð með árangurinn.  Við viljum í framtíðinni gera meira úr þessum degi og fá samfélagið allt með okkur í þeim þemum sem við tökum fyrir hverju sinni.  Eftir að allir nemendur grunn-, og tónlistarskóla og nemendur af mið- og elsta stigi leikskóla  höfðu farið og safnað saman 50 kílóum af rusli héldu nemendur af mið- og unglingastigi grunnskóla til málstofa.  Þar ræddu þau um leiðir til þess að gera umhverfið snyrtilegra, hvernig mætti hvetja fólk til þess að nota bifreiðar minna og hvað mætti gera betur fyrir unglinga sveitarfélagsins.  

Hér koma helstu niðurstöður frá nemendum eftir þessa vinnu.

 

  • Það þarf að fjölga ruslafötum og tæma þær oftar.  Einnig þarf að koma upp flokkunartunnum.

  • Virkja fólk meira á plokkunardögum, t.d. með því að gera hátíð úr því.

  • Malbika göngustíga svo þeir nýtist líka sem hjólastígar.  

  • Hafa göngustíga fallega og aðlaðandi. 

  • Það þarf að planta fleiri trjám.

  • Það þarf að koma upp hreinsistöð fyrir skólp.

  • Bæta við tunnu fyrir lífrænan úrgang.

  • Taka til á iðnaðarsvæðum.

  • Setja gangstétt við Lindarveg.

  • Nota samfélagsmiðla til þess að hvetja fólk til þess að ganga frekar en að keyra.  Sýna fram á sparnaðinn við það að ganga fremur en keyra.

  • Fá hopphjól á Hvammstanga.

  • Setja upp skilti sem minna fólk á að ganga vel um.

  • Hafa keppni á milli vinnustaða um hver skilar mestum skrefafjölda.

  • Fræða fólk um kosti hreyfingar og mengum af völdum bíla.

  • Fá ljósastaura upp í hesthúsahverfi og meðfram reiðveginum.

  • Fólk þarf að greiða fyrir bílastæði.

  • Að bændur passi betur upp á rúlluplast og komi því í endurvinnslu.

  • Hækka laun unglinga í sumarvinnu fyrir sveitarfélagið og bjóða upp á fjölbreyttari vinnu.

  • Fá kóngulóaróluna aftur á skólalóðina.

  • Setja upp hjólabrettaramp.

  • Betra leiksvæði í kringum skólana með fleiri leiktækjum, t.d. aparólu og klifurvegg.

  • Hvetja unglinga til þess að hreyfa sig meira og slökkva á farsímunum.

  • Auka úrval íþróttaæfinga t.d. með því að bjóða upp á rafíþróttir og pílu og auka klúbbastarf t.d. með LEGO klúbbi.

  • Fá bíósýningar fyrir unglinga.

  • Að sveitarfélagið standi með unglingum í að vera þeir sjálfir. 

  • Halda unglingahátíð og/eða koma með fjölbreyttari dagskrá fyrir unglinga á Eldinum.

  • Auka aftur ferðalög á skólatíma því þau hafa góð áhrif á samskipti nemenda og gott að hitta aðra nemendur úr öðrum skólum.

  • Finna stað fyrir unglinga til þess að vera á krossurum.

  • Byrja með unglingadeild hjá Björgunarsveitinni.

  • Koma upp útikennslusvæði.

 

Með erindi þessu vilja nemendur að sveitarstjórn sé meðvituð um skoðanir nemenda og að vilji sé fyrir hendi til frekara samstarfs.