ABCD námskvarðinn

Í aðalnámsskrá grunnskóla frá 2011 og í bréfi mennta- og menningarmálaráðuneytis 2014, er kveðið á um nýjan matskvarða. Þar eru skilgreind matsviðmið sem lýsa þeirri hæfni sem liggur að baki hverri einkunn. Mat á hæfni byggir ekki eingöngu á mati á þekkingu nemandans eða leikni til að framkvæma, heldur getu hans til að skipuleggja, útskýra, túlka og nota hugtök um efni viðkomandi námsgreinar eða námssviðs. Við einkunnagjöf er notaður kvarðinn A, B+, B, C+, C og D.

 

Fyrir nemendur sem stunda nám sitt að fullu eða að hluta eftir einstaklingsnámskrá í samræmi við metnar sérþarfir eru einkunnirnar A, B, C eða D stjörnumerktar * og skal gera grein fyrir frávikum frá námskrá í hverju tilviki fyrir sig. Með stjörnumerkingu er enn betur tryggt að nemendur fái námsframboð við hæfi í framhaldsskóla.

Matsviðmiðin byggja á hæfniviðmiðum námsgreina og eru kjarni einkunnakvarðans. Með matsviðmiðum fæst leiðsögn fyrir kennara, nemendur og foreldra um hvaða hæfni nemenda liggur að baki hverrar einkunnar. Kvarðanum er ætlað að draga úr mismun er varðar einkunnagjöf á milli einstakra skóla. Einkunnakvarðinn er viðmiðabundinn og ætti því ekki að reikna út meðaltal einkunna, nota hlutfall eða varpa tölum í bókstafi. Einkunnunum B+ og C+ var bætt við námsmatskvarðann árið 2014 í samræmi við ákvörðun menntaog menningarmálaráðuneytisins. Nemandi sem hefur náð meginþorra matsviðmiða B og hluta matsviðmiða A getur fengið einkunnina B+. Það sama gildir um C+ þ.e. nemandi sem náð hefur meginþorra matsviðmiða C og hluta matsviðmiða B getur fengið C+. Nemandi sem fær einkunnina B+ er því nær nemanda í hæfni sem fær einkunnina A en þeim sem fær einkunnina B. Á sama hátt er nemandi sem fær einkunnina C+ nær nemanda í hæfni sem fær einkunnina B en nemanda sem fær einkunnina C.